Saturday, 6 October 2012

Draslið

Ég held að það sé til marks um ótrúlega aðlögunarhæfni mannsins að ég skuli geta búið heima hjá mér þrátt fyrir allt draslið. Draslið sem er ekki ógnvekjandi í magni sínu, heldur er það varanleikinn sem veldur furðu minni. Að yfir höfuð skuli vera hægt að venjast þessum lífsskilyrðum. Svo ég tali nú ekki um getuleysið sem maður upplifir gagnvart hinni sífelldu og óþreytandi endurnýjun.

Samt sem áður hef ég vanist við, því þetta er heimur sem virkar eftir sínum lögmálum. Þó ég geti hvergi séð lyklana fyrir öllu draslinu á borðinu eru þeir þó á sama stað og ég skildi þá eftir síðast. Það er því óþarfi að lítast um, því svarið býr í minninu, sem brýnist við aukna notkun. Er það ekki alltof auðvelt að vaska eldhúsáhöldin upp strax eftir notkun? Betra að láta þau liggja í vaskinum og hella yfir þau kaffikorg og öðru sulli og skíta þau almennilega út áður. Þá er uppvaskið fyrst orðið áskorun. Þegar maður leitar að mat og finnur ekkert nema túnfiskdollu og skólaost í eldhúsinu getur hungrið orðið til þess að reyna sköpunargáfuna til hins ýtrasta. Svoleiðis herðir maðurinn sig upp við erfiðar aðstæður.

En maðurinn á sér aðra hlið, stjórnsemi sem óskar eftir að drottna yfir umhverfi sínu og vill leggja undir sig þennan villta heim. Bandamaður hennar er hégóminn. Þú gætir orðið eitthvað stærra og meira ef þú stjórnaðir umhverfinu í staðinn fyrir að láta að stjórn þess, heyrir villti maðurinn hvíslað úr sínum dýpstu hugarfylgsnum. Hann dregur fram ryksugu og önnur framandi tæki og ræðst gegn umhverfinu. (Ég nenni samt ekki að gera það í dag.)

En draslið kemur alltaf aftur. Sumir snúa þá aftur til hins gamla lífs sem þeir hafa þekkt svo lengi. Aðrir gleyma hvernig þeir eiga að lifa af í draslinu og neyðast til að viðhalda hinni nýju reglu. En allir taka afstöðu því tilvist draslsins og óumflýjanleg endurkoma þess neyðir okkur til þess.

Wednesday, 12 September 2012

Reykjanesbær II

Það er agalegt með börnin í Myllubakkaskóla, sagði litli frændi minn einu sinni, þau breytast bara í unglinga. Sem tónlistarkennari í téðum skóla hef ég ekki nægilegan starfsaldur til að hafa orðið vitni að þessari stökkbreytingu, því ég hef bara kennt þar í eitt ár og enn sem komið er hefur ekki eitt einasta barn tekið upp á svoleiðis ólíkindum.

Myllubakkaskóli er flókinn að uppbyggingu því það hefur margoft verið byggt við húsið svo gangarnir teygja sig í ótal ranghölum sem er ómögulegt fyrir meðalgreinda manneskju, eins og sjálfan mig, að skilja nema fyrir þær sakir hve þrotlaus vinna þroskað öll mín skilningavit (nema sjón, heyrn, lykt, snertingu og bragð.). Tónlistarkennslan fer fram í gömlum hluta sem eitt sinn hefur ekki verið ósvipaður skrifstofunum í Réttarhaldinu eftir Franz Kafka því þar hefur verið mjög loftlaust og þess vegna lagðir loftræstistokkar sem framkalla mikinn hávaða til þess að leysa vanda tónlistarskólans.

En það sem ég ætlaði að tala um í Myllubakkaskóla er kaffistofan. Kaffistofa kennara er í öðrum enda hússins, en þangað er vel þess virði að fara ef þið eigið leið hjá því skólinn státar af framúrskarandi kaffivél og þræði ég mig oft í gegnum völundarhúsið til að fá mér sopa. En það er líka sérstök kaffistofa fyrir þá tónlistarkennara sem ekki eru jafn hugrakkir og ég að leggja í þessa ferð, niðri í kjallaranum. Þar er engin kaffivél, bara instant-kaffi og te. En einhver velviljaður aðili, hvort sem hann er á vegum Tónlistarskólans eða Myllubakkaskóla, kaupir kex og hrökkbrauð sem maður getur smurt með þrem mismunandi tegundum af smurosti sem eru geymdar í þartilgerðum ískáp.

Það verður manni oft til bjargar á slæmum degi, þegar ekki gafst næði til að smyrja nesti og hagsýnin bannar manni að munda veskið á skyndibitastað. Þá getur maður treyst á þennan miskunnsama samverja sem kaupir nýtt kex og hrökkbrauð á haustin og fyllir á birgðirnar um jólin. Ég sá reyndar í morgun að viðkomandi hafði ekki keypt súkkulaðihúðaðar hrískökur, eins og í fyrra, en það fyrirgaf ég auðveldlega þegar ég át hrökkbrauð með smurosti eins og það væri mín eina ánægja í lífinu.

Myllubakkaskóli er því bæði skelfilegur staður og heillandi í senn, sveipaður dulúðugum ljóma fyrir utanðkomandi mann. Og fyrir börnin líka, sem á endanum breytast í unglinga.

Friday, 18 November 2011

Afmælislagið í Reykjanesbæ

Þó svo að ég sjálfur spili fís og cís eins og ekkert sé (no pun intended) og jafnvel gís og dís og allt upp í hina óreglulegu tónstiga aldarinnar sem leið, sem og okkar eigin, þá verður það sama ekki sagt um krakkana sem ég kenni  í Reykjanesbæ. Þessi litlu börn, sem hafa svo smáa fingur að þau geta varla lokað götunum á hljóðfærinu, virðast öll hafa lagst á eitt með miklu kappi um að láta þessar furðulegu merkingar sig engu varða og spila öll lög formerkjalaust, hversu marga krossa eða bé sem í þeim er að finna. Þegar kemur að því að spila Afmælislagið í D-dúr þá líður mér oft eins og ég sé staddur í gömlu tónfræðistofunum við Laugarveg 178 og sé að hlusta á ævafornan cantus firmus, gamlan munkasöng sem hefur ólíkan grunntón en við erum orðin vön og myndar þess vegna undarleg tónbil þegar laglínunni vindur áfram, því aldrei spila þau fís og cís, heldur ævinlega eftir sama laginu, f og c.

Það sem meira er þá eru þau ekki öll svo góð að komast í gengum lagið eins og það væri í C-dúr, heldur spila þau sum með skrækjum, beygðum tón og bjagaðri tónhæð, svo ekki sé minnst á algjört taktleysi, þannig að sá sem hlustar í gegnum dyrnar gæti haldið að hér sé á ferðinni ákaflega slæmur óbóleikari, eða rosalega góður saxófónleikari, að spila snúið nútímaverk sem útheimtir fáheyrða leikni. Venjulega versnar þetta til muna þegar ég hef bent þeim á formerkin og þau byrja að spila lagið eins og það á að vera.

Það dularfyllsta í þessu öllu er að þegar ég sendi þau heim til þess að æfa þetta tiltekna lag lýsir yfirgnæfandi meirihluti þeirra því yfir að þau séu mjög spennt að æfa það. Þegar ég bendi á lagið í bókinni og segi þeim að þetta sé Afmælislagið kemur græðgislegur glampi í augun á þeim og eflaust fylgja því þöglar heitstrengingar um að leggja nú hart að sér og geta jafnvel dregið upp klarinettið í næsta afmæli til þess að slá í gegn. Það er því mesta furða að þetta skuli ganga svona illa. Eflaust bölva þau í hljóði þessum formerkjum sem standa í vegi fyrir þeim, en það breytir því ekki að hvort sem þeim líkar betur eða verr þá eru formerki komin til þess að vera í tónlistarsögunni.

Á tímabili var ég með þá tilgátu að kannski hefði lagið breyst á þessu tiltekna svæði, eins og kemur fyrir sögur sem varðveitast í munnlegri geymd, þannig að í Reykjanesbæ væri fólk farið að syngja svona einkennilega. Við nánari athugun fannst mér tilgátan ósennileg og hafði því ekki fyrir því að gá af mér allan grun. Annars væri maður nú ljóta fíflið að setja inn öll þessi fís og cís þar sem þau eiga ekki að vera!

Þó ber að athuga að hugsanlega hef ég snúið þessu öllu á hvolf og ef ekki væri fyrir það að í þessari snilldarkennslubók, Klarinetten och jag 1, er afmælislagið í D-dúr myndu börnin aldrei hafa þann hvata sem þau þurfa til að spila rétt, nema mannkynið kjósi að láta söguna ganga aftur á bak og taka upp gömlu kirkjutóntegundirnar aftur. Eitt er víst að eftir þennan vetur get ég hvenær sem er upp á gott orð sungið afmælislagið í dórískri kirkjutóntegund.

Saturday, 29 October 2011

Prufuspilsnöldur

Þó við tökum ekki alltaf vel eftir því þá lifum við, og raunar heimurinn allur, á tímum óðfara breytiþróunar og höfum gert í langan tíma. Þetta birtist ekki aðeins í afrekum mannsins eins og að fljúga um himinhvolfin, stíga fæti á tunglið og tala í farsíma, heldur einnig í smærri hlutum eins og hönnun klósettskála og skósóla, sem og í prufuspilum hjá sifnóníuhljómsveitum.

Nú hef ég eins og flestir klarinettleikarar á Íslandi sótt um í prufuspilið hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ég ætla ekki að vera með nein gífuryrði um hvaða möguleika ég á að fá stöðuna, en þar gildir það sama og um apann sem nær að skrifa heildarverk Shakespears ef hann bara reynir nógu lengi. Þetta er svolítið eins og að vera við spilaborð þar sem þú verður að leggja undir og taka þátt í spilinu ef þú ætlar að sitja við borðið. Mikilvægast er að sýna sig og taka þátt. Þó eflaust allir vilji fá stöðuna þá myndu sálgreinendur segja að sé raunin sú að þú sækir ekki um í prufuspilið, afhjúpar það innra áhugaleysi, kannski því þú áttir í slæmum samskiptum við föður þinn þegar þú fékkst hlaupabóluna.

Hvað um það þá voru hljómsveitarpartarnir sendir út í fyrradag. Fyrir þá sem ekki eru kunnugir þá tíðkast það að senda með stuttum fyrirvara, kannski nokkura vikna, nokkra þekkta staði úr hjómsveitarverkum til að reyna þátttakendur í tækni, túlkun og tóngæðum. Það er fyrir utan konsertkaflana, sem maður hefur lengri tíma til að undirbúa. Gamli kennarinn minn, hann Guy Deplus, sem mun vera fæddur einhverntíman á síð-tertíer tímabilinu, og hefur þar af leiðandi lifað af risaeðlurnar, lofsteininn sem tortímdi þeim og margar ísaldir ásamt öllum þeim kvefpestum sem því fylgir, sagði mér að prufuspil hafa ekki alltaf verið svona. Í gamla daga, og þá er ég að meina fyrir svona 50 árum, voru víst bara konsertkaflar en engir hljómsveitarstaðir.

Nema hvað þá kemur hér inn í þessi sífellda þróun allra hluta sem ég talaði um í byrjun og hefur nú náð því stigi að Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem ætlar ekki aðeins að tolla í tískunni heldur taka virkan þátt í að móta hana, hefur sent út svo gífurlegt magn af nótum að ég er ekki viss um að ég nái að renna yfir það allt fyrir prufuspilið, þó ég hafi næstum því mánuð til stefnu! Nei, þetta eru nú einhverjar ýkjur. En fyrir staði sem ég myndi verja að minnsta kosti hálftíma í að æfa, til að vera sæmilega öruggur, hef ég rétt um fimm mínútur til þess að gutla eitthvað í nótunum, tek síðan eina mínútu til þess að hlægja eins og sefasjúkur bavíani, og held áfram með næsta stað, þar sem sagan endurtekur sig.

Hvað gengur þeim til með að hafa prufuspilið svona erfitt? Kannski er ætlunin að fæla burt útlendinga og hugmyndin sú að þeir muni ekki nenna að mæta í svona erfitt prufuspil nema þeir vilji virkilega búa á Íslandi, á meðan við Íslendingarnir erum viljugri til þess að leggja þetta á okkur. En ég fæ það á tilfinninguna að það eigi einnig að sýna okkur unga fólkinu að þó við búum á lítilli huggulegri eyju þá skal það ekki vera auðvelt að fá vinnu. Kannski þótti þeim ærandi tilhugsun að einhver klarinettleikari undir þrítugu hafi haldið að hann gæti fyllt í skarðið sem Einar Jóhannesson skilur eftir sig, ef hann gæti bara unni þetta prufuspil. Svo það var ákveðið að hafa prógramið óspilandi, því það getur hvort eð er enginn spilað eins og Einar.

(Ég var að spá þegar Michael Jordan, mikil hetja í minni barnæsku, sem einn síns liðs vann flesta leiki fyrir Chicago Bulls, settist í helgan stein og nýr maður var tekinn inn í liðið í staðinn, ætli sá (ég veit ekki einu sinn hver það var) hafi verið voða ánægður með sig því hann var að fylla í skarðið hans Jordans?)

Þannig að maður segir bara: Kæru öldungar í sinfó! Við unga fólkið berum mikla virðingu fyrir ykkur og vitum hve mikil reynsla tapast þegar þið farið frá, en við þurfum þessi tækifæri því hvar eigum við að safna okkar eigin reynslu? Svo að í framtíðinni, gætuð þið vinsamlegast ekki gert okkur svona fáránlega erfitt fyrir?

Wednesday, 19 October 2011

Með og á móti

Persónulega á ég ekkert undir í þessari vændisumræðu. Ég þekki engan sem hefur selt sjálfan sig eða keypt slíka þjónustu og hef ekki gert það sjálfur. Það eina sem ég hef er sannfæring mín um að það sé rangt, sem byggist aðallega á því hversu gjörsamlega það brýtur gegn sómakennd minni og skynsemi. En ég ætla ekki að þreyta ykkur með því að telja upp atriði þar að lútandi. Ég veit síðan vel að við getum ekki mótað heiminn eingöngu eftir því hvað mér finnst sómasamlegt. En ef maður fylgir ekki sannfæringu sinni, hvað í ósköpunum getur maður haft að segja yfir höfuð?

Þetta er ótrúlega erfið umræða. Hún verður umsvifalaust að miklu hitamáli. Í gær setti Egill Helgason það í stærra samhengi á blogginu sínu. Hann segir á einum stað "strangleiki í siðferðisefnum" og fær yfir sig gusu. Hann er óbeint kallaður óupplýstur fyrir að beita þessu orðalagi. Ég er hræddur um að ef þetta hérna blogg væri eitthvað lesið utan vinahópsins míns gæti ég átt von á skömmum fyrir að kalla vændi þjónustu í efnisgreininni hér fyrir ofan, ef opið væri fyrir komment. Eins og ég hef ýjað að áður þá er það orðið mjög vandasamt að skrifa um kynferðismál, ef það var þá nokkurn tíman auðvelt.

Þó að ég sé þeirrar skoðunar að kaup á vændi eigi að vera ólögleg og refsiverð, er ég þó hikandi þegar kemur að harkalegum aðgerðum og það finnst mér erfitt að útskýra. Ég ætla ekki að reyna að bera fram tæmandi útskýringu á því. Ætti ég ekki bara að þakka fyrir hve ég er í rauninni heppinn að hafa ekki neina reynslu sem gagnast mér í umræðunni? En ég er ekki svo laus við ímyndunarafl eða ógagnrýninn á mína eigin skynsemi til þess að fullyrða út í loftið. Svo ég verð að vísa í námsefnið sem tekur við þar sem skólabókunum sleppir, þar sem fullorðið fólk getur lært um lífið. Það eru harmleikirnir, bæði gamlir og nýjir. En er til nokkuð betra en þeir harmleikir sem gerðust í alvörunni?

Eftir að Oscar Wilde hafði setið í fangelsi fyrir ósiðsemi sína flutti hann til N-Frakklands og kom aldrei aftur til Englands. Hann var fullur auðmýktar eftir fangelsisdvölina. Hann var mjög næmur maður sem þoldi illa ruddalega hegðun og er eflaust fjær því en flestir að vera það sem kallast karlremba. Í Dieppe fór hann einu sinni á hóruhús með vinum sínum og svaf hjá vændiskonu. Mér hefur alltaf fundist þetta svo ótrúlega skrítið að hausinn á mér nær bara ekki að melta þetta. Afhverju ætti samkynhneigður maður, með hans skapgerð, að sofa hjá vændiskonu?

"Segðu frá þessu í Englandi, það mun algjörlega endurreisa orðstýr minn." sagði hann sjálfur í gríni. Hann hafði verið dæmdur fyrir samkynhneigð.

Ég veit ekki hvernig fólki verður við að heyra þetta. En svona til að setja þetta allt í meira samhengi: Hann hafði verið á hátindi frægðar sinnar tveim árum áður, en skyndilega þóttu verkin hans ekki hæf til útgáfu eða sýninga. Hann varð gjaldþrota og allar eigur hans voru seldar á uppboði. Meðan hann var í fangelsi lést konan hans og hann missti forræði yfir börnunum sínum. Hann þurfti að byrja nýtt líf í sjálfskipaðri útlegð með gjöfum frá vinum sínum. Þetta var eins slæm staða og hægt er að ímynda sér.

Þarf hann allt í einu að vera einhver ótrúlegur skíthæll? Getum við ekki litið á hann sem mann sem var á ákaflega slæmum stað í lífinu? Er ekki eitthvað ótrúlega harmrænt við það að kaupa vændi, eitthvað sem við sem ekki þekkjum til getum prísað okkur sæl að þekkja ekki? Þó saga þeirra sem nú nýlega svöruðu falskri vændisaulýsingu Stóru systur heima á Íslandi sé ekki jafn stórbrotin, hver er samt saga þeirra?

Kannski er það að hluta til þessi samúð, sem aldrei verður hægt að útskýra fullkomlega í einni setningu og mun þess vegna aldrei komast í hámæli í fréttamiðlum nútímans, og er þeim mun betra efni í harmleiki, sem skilur mann eftir þögulann og fullan efasemda þegar samkvæmt lögum, afraksturs okkar eigin skynsemi, á að taka karlmenn til bæna.

Ég vil ekki þar með segja að þó málið sé flókið þá sé ekki til neins að ræða það. Ég hef ekkert á móti því að heyra sannfæringu annara, svo lengi sem þeir eru tilbúnir að heyra mína. En mér finnst óþarfi að sitja undir ásökunum fyrir þær sakir að ég sé ekki tilbúinn til þess að ráðast harkalega á þá ólánsömu menn sem nýta sér eymd ennþá ólánsamari kvenna. Og mér finnst óþægilegt að sívökular grunsemdir mínar um að heimurinn sé flóknari en virðist við fyrstu sýn séu álitnar vera löstur, meðan ég tel þetta vera minn helsta kost.

Wednesday, 5 October 2011

Að fagna verkfalli Sinfóníunnar

Hafi það farið framhjá nokkrum manni að SUS fagnar verkfalli Sinfóníunnar ætti sá hinn sami að lesa fréttirnar aftur. Það er allrar athygli vert að SUS gleðst ekki bara yfir verkfallinu heldur stefnir í mikinn fögnuð þar á bæ af þessu tilefni. Eða það fæ ég á tilfinninguna þegar einhver er sagður fagna einhverju. Myndin sem ég fæ í hugann eru ungir menn í jakkafötum sitjandi í sal að bíða eftir einhverju, þar til einhver kemur hlaupandi inn móður og másandi og tekst að hrópa upp eftir mikla andköf: Sinfónían er farin í verkfall! Og síðan tryllist salurinn af fögnuði. Líklega gerðist þetta samt ekki.

Það er mjög erfitt að deila um þetta mál opinberlega því þetta er eins og að eiga vin sem er ekki með neitt bragðskyn og hefur alveg rosalega sterkar skoðanir á því hvað á að panta á pizzuna. Í staðinn fyrir að velja uppáhaldsbragðið sitt vill hann fá pizzu með fallegri litasamsetningu, eða velja eftir næringargildi, því hann finnur ekkert bragð. En á hann ekki rétt á sinni skoðun þrátt fyrir það? Og sérstaklega ef þetta er til umræðu í dagblöðum og öðrum fréttamiðlum, þurfum við þá ekki að stíga mjög varlega til jarðar þegar við segjum honum að hann er gjörsamlega smekklaus þegar kemur að því að panta pizzu og okkur er eiginlega alveg sama um hvaða skoðun hann hefur á þessu?

Þetta er líka athyglisverð samlíking því ef þú deilir 800 milljónunum sem kostar að reka sinfóníunna á alla Íslendinga (sem ég veit að er ekki alveg réttur útreikningur) er upphæðin 2500 krónur á hvert mannsbarn, sem er töluvert ódýrara en sparitilboð á Dominos. En þetta var nú útúrdúr.

Þeir segja náttúrulega að þeir vilji að einkaaðilar sjái um að halda hljómsveitinni uppi, en innst inni er þeim hreinlega sama hvort hér starfi sinfóníuhljómsveit eða ekki. Þar liggur hundurinn grafinn. Ekki ætla ég að standa upp og segja þeim að þeir hafi ekki skynbragð á það sem þeir eru að tala um, því ólikt vini mínum sem langar í pizzu með brokkólí og ansjósum eru þeir fjölmennir og raunar fjölmennari en við sem höfum gaman af klassískri tónlist, og ég gæti virst hrokafullur.

Var það ekki Pétur Blöndal sem sagði nýlega að þetta væri ekki list sem höfðaði til stórs hluta þjóðarinnar? Það væri gaman að snúa John Stuart Mill upp á þá sjálfa, því þeir beita honum svo oft, og spurja á móti, ætla þeir að láta viðgangast að minnihlutinn sé kúgaður? Finnst þeim í lagi að ánægju minni af því að hlusta á Sinfóníuhljómsveit Íslands verði fórnað, því ánægjan þeirra af því að panta sér eitt sparitilboð á Dominos vegur mikið þyngra þegar heildaránægjan hefur verið talin saman? En þá gleymi ég að reikna með hversu mikið þeir fagna því þegar Sinfónían fer í verkfall...

Tuesday, 27 September 2011

Hugsa og tala

Ég held að enginn tali of mikið. Í rauninni gæti ég hlustað á fólk tala allan daginn ef það hefði bara eitthvað að segja. Megnið af því sem ég hugsa á ekki erindi í orð, heldur er best geymt gleymt, en ég get allavegana verið þakklátur fyrir það sem ég hugsa og er orðsins virði.

Reyndar finnst mér stundum gott að tala án þess að málið innihaldi hugsun heldur hljómi bara vel og læt það síðan ráðast af heppni hvort það hafi einhverja merkingu sem hægt er að skilja. Eins og þegar ég segi: Þú getur stólað á að ég borða allt sem er á boðstólum.

Þetta er vegna þess að maðurinn er bæði gerður til þess að hugsa og tala, en hann er ekki jafn góður í hvoru tveggja.

Margt frægt fólk, í fjölmiðlum og stjórnmálum, hefur talað árum saman án þess að hafa neitt að segja, sem er út af fyrir sig aðdáunarvert, nema ef það hvorki hugsar né býr til skemmtilega frasa, sem er mikill löstur. En verst er þegar það byrjar að deila um hluti sem þarfnast umhugsunar og að hugsunin sé vel orðuð, en getur hvorugt.

Fólk sem getur hugsað, talað og unnið í sjónvarpi er þyngdar sinnar virði í gulli og þess vegna er best að ráða feitt fólk í þessar stöður.
Fólk sem getur ekki hugsað en samt talað og unnið í sjónvarpi kostar virði þyndar sinnar í gulli og þess vegna er best að ráða grannt fólk í þessar stöður.
Enda er þetta hvort tveggja gert og sannast af sjálfu sér.

Það er slæmt þegar fólk hugsar um það sem aðrir segja þegar þeir eru ekki að hugsa sjálfir, en það er verra að hugsa ekki um það sem aðrir segja þegar þeir eru að hugsa.